Niue
Niue er eyríki í Suður-Kyrrahafi um 2.400 km norðaustur af Nýja-Sjálandi innan þríhyrningsins sem dreginn er milli Tonga, Samóa og Cookseyja í Pólýnesíu. Land Niue er um 261 ferkílómetrar og íbúar um 1600 talsins. Eyjan er stundum kölluð „Kletturinn“ (enska: The Rock) sem er dregið af alþýðuheitinu „Klettur Pólýnesíu“.[1] Niue er upplyft kóralrif og ein af stærstu kóraleyjum heims. Landslag eyjarinnar einkennist af tveimur þrepum, þar sem annars vegar eru háir klettar og hálendisslétta úr kalksteini í um 60 metra hæð yfir sjávarmáli, og hins vegar hallandi strandslétta sem endar í lágum klettum við ströndina. Umhverfis eyjuna er kóralrif og eina leiðin inn fyrir það er á vesturströndinni þar sem höfuðborgin, Alofi, er.
Niue | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Ko e Iki he Lagi | |
Höfuðborg | Alofi |
Opinbert tungumál | enska, niueska |
Stjórnarfar | Þingbundin konungsstjórn
|
Konungur | Karl 3. |
Landstjóri | Cindy Kiro |
Forsætisráðherra | Dalton Tagelagi |
Tengdarríki | Nýja-Sjálands |
• Stjórnarskrársamþykkt Niue | 19. október 1974 |
• Sjálfstæði í utanríkismálum | 1994 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
188. sæti 261,46 km² 0 |
Mannfjöldi • Samtals (2018) • Þéttleiki byggðar |
194. sæti 1.620 6,71/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2003 |
• Samtals | 0,01 millj. dala (228. sæti) |
• Á mann | 5.800 dalir (164. sæti) |
Gjaldmiðill | nýsjálenskur dalur (NZD) |
Tímabelti | UTC-11 |
Þjóðarlén | .nu |
Landsnúmer | +683 |
Niue er með heimastjórn en er þó í sambandi við Nýja Sjáland hvað varðar ýmis utanríkismál og þjóðhöfðingja. Landið er hluti af Konungsríki Nýja-Sjálands. Íbúar Niue eru þannig nýsjálenskir ríkisborgarar og þjóðhöfðingi Nýja-Sjálands, Karl 3. Bretakonungur, er jafnframt þjóðhöfðingi Niue sem konungur Nýja-Sjálands. Milli 90 og 95% af fólki sem er upprunnið á Niue býr á Nýja-Sjálandi.[2] Þar búa líka um 70% þeirra sem tala niuesku sem er pólýnesískt mál, skylt tongversku.[3] Á Niue eru tvö opinber tungumál og um 30% íbúa tala bæði niuesku og ensku. Um 11% tala aðeins ensku en um 46% tala aðeins niuesku.
Pólýnesar settust að á Niue um 900 e.Kr. og fleiri landnemar komu frá Tonga á 16. öld. Allt til upphafs 18. aldar virðist ekki hafa verið um neina ríkisstjórn eða þjóðhöfðingja að ræða á Niue en eftir 1700 tóku íbúarnir sér konunga að dæmi Tonga eða Samóa. Fyrsti Evrópubúinn sem kom auga á eyjuna var James Cook árið 1774. Hann nefndi eyjuna Villimannaeyju (Savage Island) þar sem eyjarskeggjar vörnuðu honum landgöngu og höfðu, að því er honum sýndist, blóð á tönnunum, sem var í raun rauður banani. Næsta heimsókn Evrópumanna var frá Trúboðsfélagi Lundúna árið 1846. Íbúar snerust smám saman til kristni á síðari hluta 19. aldar. Árið 1887 bauð konungurinn, Fata-a-iki, Bretlandi yfirráð á eyjunni til að tryggja vernd gegn öðrum nýlenduveldum, en Bretar þáðu ekki boðið fyrr en árið 1900. Árið 1901 var eyjan sameinuð Nýja Sjálandi. Íbúar fengu heimastjórn í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1974.
Niue er ekki aðili að Sameinuðu þjóðunum en á aðild að sumum undirstofnunum þeirra, eins og UNESCO og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.[4][5]. Fulltrúum landsins er boðið, ásamt fulltrúum Cookseyja, að taka þátt í fundum Sameinuðu þjóðanna sem opnir eru öllum löndum. Niue hefur verið aðili að Kyrrahafsráðinu frá 1980.
Landfræði
breytaNiue er 269 km² upplyft kóralrif í Suður-Kyrrahafi, austan við Tonga.[6] Auk þess eru þrjú kóralrif innan efnahagslögsögu Niue:
- Beveridge-rif, 240 km suðaustan við Niue, flæðihringrif sem er á þurru á fjöru. 9,5 km að lengd frá norðri til suðurs og 7,5 km frá austri til vesturs, 56 km² að stærð, með ekkert land og 11 metra djúpt lón..
- Antiope-rif, 180 km norðaustan við Niue, hringlaga klettur, um 400 metrar í þvermál, með 9,5 metra minnstu dýpt.
- Haran-rif (líka þekkt sem Haransrif), 294 km suðaustan við Niue.
Fyrir utan þessi rif er Albert Meyer-rif, um 5 km að lengd og breidd, minnsta dýpt 3 metrar, 326 km suðvestan við Niue sem ekki hefur gert formlegt tilkall til þess, og Haymet-sker, 1.273 km austsuðaustur af Niue sem óvissa ríkir um.
Niue er ein af stærstu kóraleyjum heims. Meðfram ströndinni eru brattir kalksteinsklettar sem liggja að hálendissléttu í um 60 metra hæð yfir sjávarmáli. Umhverfis eyjua er kóralrif og eina leiðin inn fyrir það er um sund á miðri vesturströndinni, nálægt höfuðborginni, Alofi. Margir kalksteinshellar eru við sröndina.
Eyjan er sporöskjulaga, um 18 km á breidd, með tvær stórar víkur sem ganga inn í vesturströndina. Alofi-vík er í miðjunni og Avatele í suðri. Milli þeirra er skaginn Halagigie Point. TePā Point er lítill skagi nálægt byggðinni á Avatele í suðvestri. Flestir íbúar búa við vesturströndina, í kringum höfuðborgina og í norðvesturhlutanum.
Hluti af jarðveginum á eyjunni hefur óvenjulega efnasamsetningu. Þetta er mjög veðraður hitabeltisjarðvegur með mikið magn járn- og áloxíða (oxisol) og kvikasilfurs, og er mjög geislavirkur. Það er næstum ekkert úran en geislavirku núklíðin Th-230 og Pa-231 leiða sundrunarferlin. Þetta er sams konar efnasamsetning og finnst náttúrulega í djúpsjávarseti, en rannsóknir benda til þess að þessi efni eigi sér uppruna í mikilli veðrun kórals og stuttri dvöl neðansjávar fyrir um 120.000 árum. Hitauppstreymi, þar sem lágur jarðhiti dregur djúpsjó upp á yfirborðið gegnum gisinn kóralinn á örugglega þátt í þessari efnasamsetningu.[7]
Engin neikvæð heilsufarsleg áhrif geislunar eða frá öðrum snefilefnum hafa komið fram í rannsóknum, og útreikningar sýna að geislavirknin er líklega allt of lítil til að finnast í fólki. Þessi óvenjulegi jarðvegur er ríkur af fosfati, en í mjög óaðgengilegu formi, sem járnfosfat, eða crandallít. Talið er að svipaðan jarðveg megi finna á eyjunum Lifou og Mare við Nýju-Kaledóníu, og Rennell á Salómonseyjum, en ekki er vitað um aðra staði þar sem hann finnst.
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni eru íbúar eyjarinnar viðkvæmir fyrir húðkrabbameini. Andlát vegna húðkrabbameins var 2.482 á 100.000 íbúa árið 2002, sem er miklu meira en í nokkru öðru landi.[8]
Niue liggur handan við daglínuna miðað við Nýja-Sjáland. Tímamismunurinn er 23 tímar á veturnar og 24 tímar á sumrin þegar Nýja-Sjáland tekur upp sumartíma.
-
Kóralgjá.
-
Strönd Niue.
-
Steinbogi á Niue.
Stjórnmál
breytaStjórnsýslueiningar
breytaNiue skiptist í 14 þorp (sveitarfélög). Hvert þorp hefur sitt þorpsráð sem kýs sér formann. Þorpin eru líka kjördæmi. Hvert þorp kýs einn þingmann á Þing Niue.[9]
Alofi norður og Alofi suður eru bæði hluti af höfuðborg Niue, Alofi (614 íbúar).
Nr. | Þorp | Íbúar (manntal 2017)[10] |
Stærð[11] km2 |
Þéttleiki (km−2) |
---|---|---|---|---|
Motu (sögulegt ættbálkahérað í norðurhlutanum) | ||||
1 | Makefu | 70 | 17,13 | 4,1 |
2 | Tuapa | 112 | 12,54 | 8,9 |
3 | Namukulu | 11 | 1,48 | 7,4 |
4 | Hikutavake | 49 | 10,17 | 4,8 |
5 | Toi | 22 | 4,77 | 4,6 |
6 | Mutalau | 100 | 26,31 | 3,8 |
7 | Lakepa | 87 | 21,58 | 4 |
8 | Liku | 98 | 41,64 | 2,4 |
Tafiti (sögulegt ættbálkahérað í suðurhlutanum) | ||||
9 | Hakupu | 220 | 48,04 | 4,6 |
10 | Vaiea | 115 | 5,40 | 21,3 |
11 | Avatele | 143 | 13,99 | 10,2 |
12 | Tamakautoga | 160 | 11,93 | 13,4 |
13 | Alofi suður | 427 | 46,48 | 12,8 |
14 | Alofi norður | 170 | ||
Niue | 1.784 | 261,46 | 6,8 |
Tilvísanir
breyta- ↑ „Introducing Niue“. Lonely Planet. Afrit af upprunalegu geymt þann 25 október 2016. Sótt 24. október 2016.
- ↑ „QuickStats About Pacific Peoples“. Statistics New Zealand. 2006. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. nóvember 2011. Sótt 28. október 2011.
- ↑ Moseley, Christopher; R. E. Asher, ritstjórar (1994). Atlas of the World's Languages. New York: Routledge. bls. 100.
- ↑ „Niue“. UNESCO International Bureau of Education. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. september 2015. Sótt 26. maí 2021.
- ↑ „List of member countries“. World Health Organization.
- ↑ Jacobson G, Hill PJ (1980) Hydrogeology of a raised coral atoll, Niue Island, South Pacific Ocean. Journal of Australian Geology and Geophysics, 5 271–278.
- ↑ Whitehead, N. E.; J. Hunt; D. Leslie; P. Rankin (júní 1993). „The elemental content of Niue Island soils as an indicator of their origin“ (PDF). New Zealand Journal of Geology & Geophysics. 36 (2): 243–255. doi:10.1080/00288306.1993.9514572. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 2. desember 2007. Sótt 3. desember 2007.
- ↑ „UV radiation: Burden of disease by country“. World Health Organization, Global Health Observatory Data Repository. 2002.
- ↑ Niue Village Councils Ordinance 1967
- ↑ „Niue Household and Population Census 2017“ (PDF). niue.prism.spc.int. Niue Statistics Office. Sótt 5. maí 2020.
- ↑ The Total Land Area of Niue